Verkirnir mínir eru 100% líkamlegir!

Margir verkjasjúklingar leggja áherslu á að þeirra verkir séu einungis líkamlegir. En þegar fólk öðlast meiri þekkingu á verkjum og tilurð þeirra gerir það sér grein fyrir að allir verkir eiga sér einnig sálfélagslegar orsakir og ef það er svo að verkirnir þínir eru einungis af sálfélagslegum orsökum (miðlægir verkir) þá er það mikið fagnaðarefni því þá geturðu náð fullum bata.

Allir verkir eru raunverulegir og verkir sem ekki orsakast af vefjaskemmdum geta verið jafnsárir eða sárari en verkir sem orsakast af vefjaskemmdum, trúðu mér, ég lifði með mígreni í áratugi.

Allur sársauki verður til í heilanum og sársauki er reyndar mjög gagnlegur. Einstaka börn hafa fæðst án þess eiginleika að geta fundið til og yfirleitt hafa þau ekki orðið langlíf. Við þurfum sársauka til að vara okkur við hættu svo við til dæmis tökum hendina í burtu ef hún er á heitri hellu. Við lærum að vera hrædd við þau áreiti sem gætu valdið okkur sársauka og forðast þau svo sem að hlaupa af götunni ef bíll kemur á miklum hraða.

Þegar við finnum til þá eru það skilaboð frá ósjálfráða taugakerfinu um að við séum í hættu. Það gerir það að verkum að t.d. eftir fótbrot hreyfum við lítið fótinn sem er brotinn og reynum ekki að stíga í hann. Þannig verndum við fótinn á meðan við erum að ná bata. Þetta er allt gott og blessað og mjög nauðsynlegt. Stundum gerist það svo að heilinn sendir skilaboð um verki á svæði þar sem engar vefjaskemmdir eru. Heilinn er þarna að meta eðlileg og hættulaus skilaboð frá líkamanum sem hættuleg. Það getur til dæmis verið það sem kallast mígreni, vefjagigt og iðraólga. Þetta birtist líka oft sem bakverkur og getur reyndar verið verkur hvar sem er annars staðar í líkamanum. Ef þú ert búin(n) að ganga á milli lækna og engin orsök hefur fundist fyrir verkjunum þá eru allar líkur á að þú hafir það sem kallast miðlægir verkir (e. centralised pain). Þetta er mjög algengt og er ekki annað en villuboð frá heilanum og til eru áhrifaríkar aðferðir til að kenna heilanum að þessi skilaboð séu örugg og hættulaus og þar með losnum við við verkina. Þetta hljómar furðulega við fyrstu sýn (heyrn) en taugavísindin, rannsóknir og ótrúlegur bati fjölda manns bendir allt í þessa átt.Nýjar greinar: